Chemex


Hæg uppáhelling- Tærara kaffi 

Chemex kaffikannan hefur verið stofuprýði á mörgum heimilum í áratugi. Hún var fundin upp af efnafræðingnum Dr. Peter Schlumbohm í New York árið 1939. Ástæðan fyrir leit hans að nýrri aðferð við að laga kaffið sitt var sáraeinföld og við tengjum örugglega flest við hana: vont vinnustaðakaffi.

Svo vel hefur Chemex-kannan fest sig í sessi að hana má finna í MoMa listasafninu auk þess sem aðdáendur Friends þáttanna kannast strax við könnuna þegar þeir sjá hana.

Þrátt fyrir langa sögu hefur Chemex ekki verið áberandi í almennri vitund kaffidrykkjufólks nema upp á síðkastið. Fyrsta Chemex kannan var seld á 5. áratugnum en fljótlega eftir lát uppfinningamannsins lagðist merkið í dvala. Það var ekki fyrr en í byrjun 21. aldarinnar sem Chemex gekk í gegnum endurnýjun lífdaga – án þess að hafa breyst að neinu ráði. Hin svokallaða þriðja bylgja sælkerakaffis í Bandaríkjunum tók Chemex könnuna gjörsamlega upp á sína arma og hefur myndast stór aðdáendahópur af kaffibarþjónum og áhugafólki um allan heim.

Fyrir áhugasama má lesa hér flotta grein eftir Liz Clayton um heimsókn sína í framleiðsluna. Chemex er kanna úr hitaþolnu gleri sem hentar vel til að reiða fram kaffi en hún er einnig aðferð með sín séreinkenni. Hún er í flokki uppáhellingaraðferða líkt og Hario v60, Melitta og sjálfvirka filterkaffivélin. Það sem gerir hana öðruvísi er pappírssían. Sían er gerð úr þykkari pappír en má finna í öðrum síum og sleppir pappírinn nánast engu í gegnum sig nema uppleystan vökva. Olíurnar úr kaffinu verða eftir í síunni ásamt öllum korginum. Fyrir vikið er kaffið sem hellt er upp á með Chemex með tærustu bragðeiginleika í samanburði við aðrar tegundir af uppáhellingu, en kaffið er einnig með léttustu fyllinguna (olíurnar gefa kaffinu fyllingu, þó á kostnað tærleika í bragði).

Vegna þess hversu létt og tært kaffið verður í Chemex er borðleggjandi að hella upp á kaffi sem hefur ekki mikla fyllingu fyrir. Þvegið kaffi frá löndum í Suður-Ameríku á borð við Kosta Ríka og Kólumbíu, eða Afríkulöndum á borð við Eþíópíu og Keníu, nýtur sín stórkostlega í Chemex. Kaffi með mikla fyllingu eins og frá Brasilíu eða Indónesíu fær ekki að njóta sín í sama mæli þó að Chemex-sían dregur vissulega fram sætleikann í kaffinu.

Chemex-kannan og sían er til í ýmsum stærðum og gerðum. Minnsta gerðin hentar fyrir 3 bolla, miðstærðin hentar fyrir 6 bolla og stærsta kannan í sölu hjá okkur hentar fyrir 8 bolla. Hægt er að velja könnur annað hvort með glerhandfangi eða viðarkraga og auk þess eru framleiddir ýmis konar aukahlutir fyrir þessa íkonísku glerkönnu.