Hario V60


Hario V60

Japanska uppáhelliaðferðin sem hefur heillað heiminn

Japanski glerframleiðandinn Hario hefur sérhæft sig í hágæða hitaþolnu gleri fyrir iðnað, vísindastofur og heimilið frá því að fyrirtækið var stofnað árið 1921. Auk þess framleiðir Hario ýmislegt óvanalegt eins og glerhljóðfæri – en kaffi- og tevörurnar eru meginaðdráttaraflið í dag. Þekktasta varan úr þeirri línu er án efa v60 kaffitrektin.

Nafnið vísar í 60° hornið sem trektin myndar en sérkenni v60 eru rákirnar innan í trektinni og stórt gatið neðst þar sem kaffið lekur út um, en hvort tveggja stuðlar að miklu loftflæði svo að vatnið síast hratt og óhindrað í gegnum malað kaffið.

Sumir filtervélaframleiðendur ráðleggja fólki ekki að hella upp á minna magn en 4 bolla (500ml). v60 hentar þess vegna fyrir uppáhellingu í minna magni án þess að gæðum sé fórnað. Trektin er fáanleg í tveimur stærðum á kaffihúsum Te Kaffi. Stærð 1 er gerð fyrir 1-2 bolla eða í mesta lagi 400 ml. Stærð 2 er gerð fyrir 2-3 bolla eða í mesta lagi 600ml. Filterarnir eru einnig til í sömu stærðum.

Kaffið úr Hario v60 er tært og létt eins og við má búast þegar hellt er upp á gegnum pappírsfilter, en filterinn hleypir engu gruggi í gegnum sig og litlu magni af olíum. Fyrir aukinn tærleika er gott að skola filterinn með heitu vatni, en það hitar um leið trektina og bollann/könnuna sem kaffið endar í.

Þvegið kaffi (nafnið á vinnslunni áður en kaffið er ristað) frá Suður-Ameríku og Afríku nýtur sín sérstaklega vel í þessari aðferð, sérstaklega ef það hefur verið ræktað hátt yfir sjávarmáli.

Það er hægt að smakka kaffi úr v60 á sumum kaffihúsum Te Kaffi og þá er hægt að velja milli ólíks kaffis sem er í boði hverju sinni. Spyrjið kaffibarþjóninn um hæga uppáhellingu!