Innanhússmót kaffibarþjóna Te & Kaffi


Laugardaginn 12. nóvember var blásið til stórskemmtilegrar keppni sem jafnan hefur þjónað sem undanfari fyrir Íslandsmót Kaffibarþjóna. Mótið var haldið eftir lokun kaffihússins okkar í Borgartúni og mættu strax í byrjun stór hópur fólks sem fylgdist spennt með.

Keppnin var með einfaldara sniði, en keppnistími var styttur og keppendur þurftu að skila af sér færri drykkjum en á Íslandsmóti. Fjórir kaffibarþjónar kepptu í þetta sinn og voru þau búin að æfa sig stíft síðan snemma um haustið:

Egill Freyr Sigurðsson, kaffibarþjónn á Aðalstræti 9.
Paulina Bukowska, kaffibarþjónn í Kringlunni
Paulina Bernaciak, kaffibarþjónn í Hamraborg
Rakel Ósk Kristínardóttir, kaffibarþjónn á Laugarvegi 27

Dómarar voru Halldór Guðmundson framkvæmdastjóri kaffihúsanna, Kristín Björg Björnsdóttir, kaffibarþjónn og þjálfari og Tumi Ferrer, fræðslustjóri kaffihúsanna.

Keppendur þurftu samkvæmt reglum að búa til þrjá flokka af espressodrykkjum sem þau báru fram fyrir smakkdómara en einnig var tæknidómari á svæðinu til að fylgjast með vinnulagi keppenda og meta tæknileg atriði kaffigerðarinnar. Bragðdómarar lögðu mat sitt á einföldum espresso, óblönduðum, espressodrykk með hitaðri mjólk (engu öðru bætt út í) og loks frjálsan drykk, sem má skilja sem óáfengan espressokokteil, en þar gefst keppendum tækifæri á að para saman krydd, síróp eða sýru saman við espresso til að toga bragð bragð í kaffinu sem er ekki eins áberandi sem espresso eða mjólkurkaffi.

Allir keppendurnir voru að stíga sín fyrstu skref í kaffibarþjónakeppni og stóðu þau sig öll með stakri prýði. Eftir að dómarar höfðu gefið öllum keppendum stig og stigin talin saman var komið að verðlaunaafhendingu.

Sigurvegari Innanhússmótsins var Egill Freyr Sigurðsson. Hann notaðist við blöndu af kaffi frá Sidamo í Eþíópíu og Mandheling í Súmatra og frjálsi drykkurinn hans innihélt kakósmjör, karamellusíróp, cayenne pipar og kanil, allt saman hrist í klaka og borið fram í litlu glasi með léttþeyttum rjóma ofan á.

Það er mikil vinna á bak við að koma fram í keppni sem þessari, gera kaffidrykki og framreiða og lýsa bragði kaffisins sem dómarar eiga að smakka. Við óskum keppendunum okkar öllum til hamingju með að hafa stigið þetta skref og vonum að þau haldi áfram að keppa í náinni framtíð.