Nordic Roaster Forum 2016


Nýlega var haldinn viðburðurinn Nordic Roaster Forum sem er í senn ráðstefna og keppni milli brennslumeistara í ristun á kaffi. Reglur keppninnar eru frekar fáar; brennslumeistarar ráða því alfarið hvernig kaffið á að vera ristað en allt kaffið er lagað á sama hátt og smakkað hlið við hlið. Í ár þarf kaffið einnig að vera komið frá sömu heimsálfunni og runnið undan sama yrkinu (yrki má skilja sem nokkurs konar undirtegund, líkt og við tölum um ýmis yrki af tómötum, eplum, vínþrúgum o.s.frv.).
Auk keppninnar var þétt og góð dagskrá með fyrirlestrum og vinnusmiðjum þar sem snert var á ýmsum flötum sem tengdust ristun og stjórnun gæða frá því brennslumeistarar kaffið í hendurnar.
Þetta er annað árið í röð sem við heimsækjum ráðstefnuna og biðum við með mikilli tilhlökkun yfir að koma aftur. Upphaflega var ætlunin að taka þátt í keppninni en við vorum naumlega of sein að sækja um þetta árið.
Stór hluti ráðstefnunnar fór fram á smökkunarborðinu. Daginn fyrir ráðstefnuna var boðið upp á vinnusmiðju þar sem þátttakendur gátu æft sig og samræmst í stigagjöf eftir stöðluðu matsblaði frá samtökunum Cup of Excellence. Þetta matsblað var síðan notað í keppninni til að dæma kaffið með hliðsjón af tærleika, fyllingu, sætu, sýru, eftirbragði og almennum bragðgæðum.
Gæði fyrirlestranna á Nordic Roaster Forum eru ævinlega mjög há og eru efnistökin afar fjölbreytileg, enda margt sem tengist starfi brennslumeistara en að rista kaffið. Þó að kjarni þess sem rætt var um innihélt djúpar og ögrandi pælingar um það sem við vitum og vitum ekki um ristunarferlið sjálft var mörgum öðrum steinum snúið sem skipti ekki síður mali. Þar á meðal var talað um ræktun kaffisins, hvernig á að næra jörðina, fjölbreytilegt pólitískt landslag milli kaffiræktunarlanda, og hvernig hægt er að nýta kaffikorg eftir uppáhellingu til að rækta ostrusveppi.
Einnig vorum við ráðstefnugestirnir notaðir sem tilraunadýr, en við hjálpuðum til við gagnasöfnun sem átti að hjálpa okkur að skilja hvernig við notum sumar bragðlýsingar í kaffi. Orð eins og "fylling" og tærleiki" virðast nokkuð auðskiljanleg en þegar betur er að gáð meinum við ekki sama hlutinn þegar við lýsum kaffi eftir þessum skölum. 
 
Það eru fáir viðburðir á árinu þar sem slíku magni af upplýsingum er miðlað á jafn stuttum tíma, þar sem jafn margir sérfræðingar í ristun eru undir sama þaki á sama tíma og skiptast á skoðunum og einmit á Nordic Roaster Forum. Okkar verkefni þegar við komum heim er spennandi: að melta þessar upplýsingar og breyta í þekkingu, miðla henni til okkar samstarfsfólks og tileinka okkur í sífellu nýja og bætta vinnuhætti við kaffiristun.