Pressukanna


Kannan var fundin upp af Attilio Calimani árið 1929 og er líklega sú aðferð sem fljótlegast er að læra. Kaffi og vatn er blandað saman í könnu og í lokin er korginum þrýst niður með grófu sigti. Kaffi gert með pressukönnu hefur vanalega mikla fyllingu og olíukennda áferð þar sem sían sleppir í gegnum sig miklu magni af olíu og fíngerðu gruggi. Tærleiki í bragði er minni en í kaffi sem hefur verið síað með pappír.

Pressukannan er vinsæl aðferð fyrir kaffi sem er ristað dekkra og hentar vel fyrir kaffi sem er ræktað í lágri hæð yfir sjávarmáli. Dæmi um þess konar kaffi eru tegundir frá Indónesíu og Brasilíu. Ljósari tegundir njóta sín ágætlega í pressukönnu, sérstaklega ef fólk vill fá meiri fyllingu en úr uppáhelltu. Þegar kemur að bragði er pressukannan sú aðferð sem á mest skylt við cupping, sem er stöðluð aðferð við að smakka kaffi og er notuð um allan heim af fagfólki í kaffiframleiðslu bæði við val á kaffi og gæðastjórnun. Báðar aðferðir sýna allt kaffi í réttu ljósi – engu bætt við, ekkert tekið úr því.

Uppskrift fyrir pressukönnukaffi er aðeins öðruvísi en fyrir uppáhellt. Til að kaffi gert með pressukönnu hafi sams konar bragð og uppáhellt þarf að nota meira kaffi. Algengt viðmið fyrir uppáhellt kaffi er 60g kaffi á móti lítra af vatni en í pressukönnu þarf 68g kaffi á móti hverjum lítra.