Sóley Riedel hlaut bronsið á Íslandsmóti kaffibarþjóna 2018Fjórir kaffibarþjónar frá Te & Kaffi tóku þátt á Íslandsmóti kaffibarþjóna sem var haldið í húsakynnum Expert í Draghálsi. Te & Kaffi lagði meðal annars til espressovélar af gerðinni Black Eagle, og kvarnir af gerðinni Mythos II, en báðar eru framleiddar af Nuova Simonelli og dótturfyrirtækinu Victoria Arduino, sem við höfum átt í viðskiptum við í áratugi.
Sóley Riedel
 
Khadija Ósk Sraidi frá Kaffitár var krýnd Íslandsmeistari kaffibarþjóna 2018. Við óskum henni innilega til hamingju með sigurinn og velgengni á Heimsmeistarakeppni kaffibarþjóna sem verður haldin í Amsterdam næstkomandi júní.
Daníel Ingi Sigþórsson, vaktstjóri í Kringlunni; Jessica Canode, vaktstjóri á Laugarvegi 27; Paulina Ewa Bernaciak, vaktstjóri í Hamraborg; og Sóley Riedel,  vaktstjóri í Borgartúni kepptu frá Te & Kaffi og stóðu sig með stakri prýði. 
Sóley endaði á því að hreppa þriðja sætið, en hún keppti með Sumatra Mandheling, sem fæst á kaffihúsunum okkar og er dýrkað og dáð fyrir þá miklu fyllingu og jarðartóna sem má að mestu tengja við þá einstöku vinnslu sem kaffið hefur farið í gegnum.
Sóley gerði einstaklega flottan og girnilegan drykk fyrir dómarana, en markmiðið hennar var að gera kaffidrykk sem hefði sömu eiginleika og Porter bjór. Til að ná því fram blandaði hún espresso saman við melassa og heitt vatn, sem hún síðan lokaði inn í rjómasprautu og hlóð með niturgasi til að gefa drykknum aukna áferð. Bar hún drykkinn fram í koníaksglasi og var vel látið af honum í keppninni.
Daníel Ingi notaðist við gamla góða Espresso 101 í sinni keppnisrútínu á meðan Jessica og Paulina notuðust báðar við Kenya Ragati, sem er eitt af Micro Roast kaffitegundunum okkar.