World of Coffee kaffisýningin


Kærkominn vettvangur fyrir kaffifólk hvaðanæva úr heiminum til að hittast, spjalla og læra hvert af öðru

Stór fjöldi kaffibarþjóna frá Te Kaffi er nú kominn heim aftur frá Dublin en þar fór fram kaffisýningin World of Coffee. Í senn er þetta vörusýning þar sem vélaframleiðendur, bændur og þjónustuaðilar í kaffibransanum eru með bása og sýna vörur sínar eða þjónustu; hún er líka kærkominn vettvangur fyrir kaffifólk hvaðanæva úr heiminum til að hittast, spjalla, skiptast á upplýsingum og skoðunum og læra hvert af öðru; síðast en ekki síst er World of Coffee staðurinn þar sem hluti af kaffibarþjónakeppnunum er haldinn.

Í Dublin voru tvö mót haldin: Heimsmeistarakeppni kaffibarþjóna og heimsmeistarakeppni í kaffigerð. Þetta er í fyrsta skipti síðan árið 2013 sem Íslendingar senda frá sér keppanda á heimsmeistaramót og því var spenningurinn mikill fyrir keppninni. Báðir Íslandsmeistararnir vinna hjá Te og Kaffi, en þeir heita Tryggvi Þór Skarphéðinsson og Tumi Ferrer.

Tryggvi keppti í heimsmeistarakeppni kaffibarþjóna síðastliðinn fimmtudag og var okkur til mikils sóma. Hann keppti með kaffi frá Brasilíu sem heitir Fazenda Raihna og gerði með því þrenns konar drykki fyrir dómarana: espresso, mjólkurkenndan espressodrykk í svipuðum hlutföllum og cortado og seinast gerði hann kaffikokteil í fallegu desertvínglasi sem innihélt m.a. kældan espresso, pekanhnetur, rjóma og kókos-sykur. Því miður komst Tryggvi ekki áfram í undanúrslit en samkeppnin hefur orðið harðari með árunum og er dæmi um að kaffibarþjónar taki sér frí til langs tíma frá vinnu til að undirbúa sig fyrir keppni. Hér má sjá Tryggva keppa:

 

Degi síðar keppti Tumi í heimsmeistarakeppni í kaffigerð, en hann notaði kaffi frá Sidamo í Eþíópíu, frá samvinnufélagi sem heitir Hunkute. Keppni í kaffigerð er mun einfaldari í sniðum en keppendur þurfa einungis að framreiða þrjá bolla, sem þó þurfa að vera gerðir sitt í hvoru lagi. Tumi notaðist við kaffið þegar það var upp á sitt ferskasta, auk þess sem hann hellti upp á kaffið með óvenjulegri uppskrift til að draga fram meiri ilm og fyllingu í kaffið. Því miður dugði það ekki til að komast í úrslit í þetta skiptið. Báðir íslensku keppendurnir hafa þó talað um að þeir hafi dregið mikinn lærdóm út úr keppninni sérstaklega eftir að hafa farið yfir stigin með dómurunum til að rýna betur í hvað hefði mátt fara betur.

Hér má sjá Tuma keppa:

 

Stemningin í föruneytinu var ávallt góð enda mikið um að vera fyrir utan keppni og ráðstefnur. Margir kaffibarþjónar unnu sjálfboðavinnu á sérstökum uppáhellibar sem var rekinn af World Coffee Events, en þar gat fólk smakkað kaffi frá mörgum af fremstu kaffiristurum heims á meðan það heimsótti nærstandandi bása. Á kvöldin voru ýmis konar samkomur og partí. Til dæmis var haldin Heimsmeistarakeppnin í Aeropress-kaffigerð á barnum Vice í miðbæ Dublin og mikið af fólki mætti til að fylgjast með nýjustu straumum í þessari fjölhæfu aðferð. Síðasta daginn var síðan haldið risastórt eftirpartí þar sem kaffifólk gat dansað og haft gaman áður en það þurfti að stíga aftur upp í flugvél og halda heim á leið

Heilt yfir á litið var kaffisýningin gífurlega vel heppnuð og fjölbreyt og hægt var að finna eitthvað við sitt hæfi hvort sem áhuginn beindist að keppnunum, nýjungum í kaffibransanum eða að sækja námskeið og vinnusmiðjur.