World of Coffee sýningin í Amsterdam


Te og Kaffi sendi frá sér frítt föruneyti til Amsterdam í síðustu viku til að skoða hátíðina World of Coffee. Hátíðin er haldin árlega en alltaf á nýjum stað og því myndast talsverður kaffitúrismi í kringum hátíðina. Á hátíðinni var hægt að fylgjast með Heimsmeistaramóti Kaffibarþjóna (WBC), en á því móti áttum við Íslendingar fulltrúa sem heitir Khadija Ósk Sraidi, kaffibarþjónn hjá Kaffitár. 
Einnig var hægt að kíkja á vörusýninguna, en þar var hægt að skoða vörur sem snerti þvínæst alla fleti kaffimarkaðarins, frá sölu óristaðs kaffis, ristunar til nýsköpunar á sviði kaffihúsareksturs; tæki og tól fyrir kaffibarþjóna, hreinsivörur og jafnvel kaffiskartgripir voru sýnilegir á sýningunni. Eitthvað fyrir okkur öll!
Ýmislegt fleira var hægt að skoða á hátíðinni og var mjög mikilvægt að skipuleggja sig vel, því margir dagskrárliðir áttu sér stað samtímis. Boðið var upp á smökkun í þar til gerðum „Cupping“-herbergjum allan liðlangan daginn og stíf fyrirlestradagskrá var í boði alla þrjá daga hátíðarinnar. Fyrirlestrarnir voru af ýmsum toga, hvort sem fólk hafði áhuga á kaffibruggun og ristun, eða ræktun, kaffihúsarekstri eða jafnvel umhverfismálum, sjálfbærni eða félagslega þætti kaffiheimsins.
Á myndinni: Áhugaverð smökkun á kaffi frá Venezuela sem var ræktað og unnið árið 1962! Kaffið í bláa bakkanum er óristað.
Stærstu fréttirnar frá þessari hátíð eru þó án efa að blað var brotið í sögu Heimsmeistaramóts Kaffibarþjóna, en í fyrsta skiptið frá upphafi keppninnar fyrir 18 árum, er titlinum hampað af konu. Hún heitir Agnieszka Rojewska og keppti fyrir hönd Póllands Konur hafa oft verið mjög nálægt því, alveg frá fyrsta ári keppninnar, að vinna keppnina, en það er fyrst núna sem það tekst. Við vonum að sigur Agnieszku í nýafstaðinni keppni verði ekki einsdæmi þegar litið verður til baka á sögu Heimsmeistarakeppni kaffibarþjóna.
© COmmunicaffe.com
Agnieszka rétt eftir að bikarinn var afhentur
Hátíðin var, eins og oft áður, afar vel heppnuð og mikið af nýjum lærdómi sem fékkst af ferðinni sem kemur til með að nýtast Te & Kaffi á alls konar hátt. Við hlökkum til að heimsækja komandi hátíðir í framtíðinni.