Costa Rica La Flor

Costa Rica La Flor


Þetta kaffi kemur frá búgarðinum La Flor del Roble (þýðir Eikarblómið) sem er í eigu bóndans og framleiðandans Dagobierto Trejos. Hann vinnur kaffið einnig eftir ræktun, en á búgarðinum er vinnslustöðin Don Ramon, en það er frekar algengt í Costa Rica að búgarðarnir innihaldi einnig vinnslustöðvar.

Vinnslustöðin gerir Dagobierto kleift að fylgja gæðunum eftir lengur í keðjunni, með því að tína óþroskuð ber frá, gallaðar baunir og sortera síðar í ferlinu þangað til það er tilbúið til útflutnings. Búgarðurinn er í héraði sem heitir Brunca og er ekki þekkt fyrir há gæði í kaffiheiminum. Þess vegna er spennandi að fá tækifæri til að smakka falda gimsteina eins og þetta kaffi. Kaffið er unnið á óvenjulegan máta sem kallast „fermented white honey“, vinnsluaðferð sem blandar saman eiginleikum blautrar vinnslu, hunangsvinnslu og berþurrkunar.

 

Þegar berin hafa verið tínd við æskilegan þroska er hýðið og ávöxturinn skilinn frá fræinu og sett í gerjunartank í 12 klukkutíma þar sem ytri lög fræsins eru gerjuð frá. Eftir gerjun fara fræin í vatnsbað og pektínhúðin utan um fræið er fjarlægt að hluta, eða þangað til um 30% af pektínhúðinni er eftir utan um fræin. Þaðan fara fræin út á stétt og eru sólþurrkuð þangað til þau hafa náð stöðugu rakastigi til að vera geymt í þurrlager.

Bragðtónarnir geta þarafleiðandi verið nokkuð óvenjulegir miðað við upprunalandið: Reykur, stokkrós, grænt te, matcha, dökkt súkkulaði, dökkt kaffi, blómatónar. Forvitnilegt og skemmtilegt kaffi. Þetta kaffi er mjög áhugavert að því leiti að það hefur náttúrulega beiskju í bragðinu sem minnir á dökkristað kaffi, en kaffið er þó ljósristað. Það gerir það að verkum að fólk sem drekkur dökkt kaffi gæti kunnað að meta þetta kaffi. Þetta er mjög velkomin beiskja sem minnir á matcha te.