SAMFÉLAGSLEG ÁBYRGÐ


Te & Kaffi reynir eftir fremsta megni að láta gott af sér leiða. Samfélagslegum verkefnum Te & Kaffi má skipta upp í tvo flokka. Annars vegar kaupir Te & Kaffi sjálfbært kaffi og hinsvegar er fyrirtækið í samstarfi við Barnahjálp Sameinuðu Þjóðanna, Unicef.

RAINFOREST ALLIANCE

Rainforest Alliance snýst um umhverfisvernd á ræktunarsvæðum. Þetta þýðir meðal annars að villtir fuglar og önnur dýr eru látin óáreitt, regnskógar verndaðir, vatnsuppsprettum er haldið hreinum og ómenguðum og komið er fram við verkafólk af virðingu og sanngirni. Einnig lúta markmiðin að framleiðslu á háu gæðastigi og notkun á tækni til að halda við framleiðslustigi og bæta umhverfið. Auk þessa snýst verkefnið um að fræða kaupendur og neytendur um kosti þess að kaupa kaffi sem er framleitt innan ramma samfélagslegra og vistvænna verkefna, sem bæta lífsskilyrði fólks á ræktunarsvæðum.

 

UNICEF

Síðan 2008 hefur Te & Kaffi verið í samstarfi við UNICEF á Íslandi um sölu á kaffi til fyrirtækja þar sem hluti af söluandvirði vörunnar rennur til UNICEF. Verkefnið fer fram reglulega og í það er notað kaffi sem er innan UTZ Certified vottunar.

Einnig hafa kaffihús Te & Kaffi boðið viðskiptavinum sínum að styrkja starf UNICEF með sölu sérstakra styrktarspjalda þar sem allur ágóði rennur til UNICEF. Fyrir örfáar krónur má gera stóra hluti á vegum Unicef.

 

SJÁLFBÆRT KAFFI

Hægt er að láta gott af sér leiða um leið og kaffi er keypt á heimsmarkaði. Te & Kaffi hefur ávallt haft það að leiðarljósi, hvort heldur fyrirtækið verslar beint frá bónda eða frá bændum sem tengjast samtökum sem hjálpa þeim að auka gæði framleiðslu sinnar og gera betur við starfsmenn og umhverfi þeirra, sem þeir annars gætu ekki eða ættu erfiðara með sem einyrkjar.

Sjálfbært kaffi gefur ræktendum aukið virði umfram annað kaffi. Hvort sem það er UTZ certified eða Rainforest Alliance. Þetta kaffi tryggir ræktendum sem hafa fjárfest í menntun, félagslegri uppbyggingu, efnahagslegri sjálfbærni og náttúruvernd, hærri greiðslur. Þessi sjálfbærni skapar öllum þeim sem koma að kaffiræktuninni betri lífsskilyrði.

 

UTZ CERTIFIED

Utz þýðir „gott að innan“ á tungumáli Maya. UTZ Certified er alþjóðlegt verkefni sem snýst um að votta aðila sem eru tengdir ábyrgri kaffiframleiðslu, hvort sem það eru ræktendur, framleiðendur eða aðrir sem koma að ferlinu. UTZ Certified er svar við þeim vaxandi áhuga neytenda að vita meira um uppruna þess kaffis sem þeir drekka. Löggjöf varðandi matvæli í Evrópu og Japan er líka að þróast í átt að auknu gagnsæi varðandi uppruna og rekjanleika hinnar endanlegu vöru.

UTZ Certified veitir fullvissu um ábyrga kaffiframleiðslu og upprunavottorð sem neytendur eru farnir að krefjast. Ennfremur svarar verkefnið tveimur mikilvægum spurningum fyrir alþjóðlegar kaffikeðjur; hvaðan kemur kaffið og hvernig var það framleitt?

Þeir ræktendur sem hafa vottun UTZ Certified fara eftir þessum siðferðislegu reglum. Óháðir skoðunaraðilar sinna árlegu eftirliti til að tryggja að farið sé eftir settum reglum.


Þessi vöruflokkur er tómur!