Aeropress
Aeropress

Aeropress

Aeropress


Þó að uppfinningin sé ekki nema tíu ára gömul hefur Aeropress sigrað heiminn og fest sig rækilega í sessi sem uppáhalds græjan í vopnabúri bæði kaffibarþjóna og áhugafólks. Aeropress er í laginu eins og risavaxin sprauta; kaffi og vatni er blandað saman í sívölum hólki þar sem því er síðan þrýst út með handafli.


Frá því að Alan Adler fann upp á Aeropress árið 2005 og byrjaði að selja fyrstu nothæfu eintökin hafa kaffibarþjónar keppst við að finna nýjar leiðir til að gera kaffi með græjunni. Í dag er meira að segja haldið árlegt heimsmeistaramót til heiðurs þessari aðferð.


Bragðið úr Aeropress má segja að sé mitt á milli pressukönnu og uppáhellingar. Kaffið fær nefnilega að lagast eins og hefðbundin pressukanna en svo er því þrýst gegnum þétta pappírssíu sem tekur í burtu stóran hluta af olíunum og verður bragðið tærara og fyllingin léttari.


Kaffilögun í Aeropress er í sama flokki og pressukannan, sogkannan (nýyrði fyrir syphon brewer) og aðrar aðferðir þar sem kaffið er látið liggja í vatninu allan tímann áður en það er síað. Í þessar aðferðir þarf hlutfallslega meira kaffi á móti vatni en í uppáhellingaraðferðum (þar sem kaffi er hellt í gegnum malað kaffið og það síað á meðan það er lagað – eins og Chemex, Hario v60 og aðrar aðferðir í þeim dúr).


Úr einni lögun fæst um það bil 230-250 ml af kaffi sem er nóg fyrir einn til tvo bolla. Einn helsti kostur Aeropress er hversu létt og fyrirferðalítil græjan er. Hún hentar fullkomlega í fjallgönguna og það hefur einnig myndast félagsskapur fólks sem hefur Aeropress með um borð í flugvélum. Lögun á gæðakaffi hefur aldrei verið jafn auðveld.