Fara í efni

Nordic Best Roasters 2026

Ein þau bestu á Norðurlöndum: Te & Kaffi keppir í Nordics Best Roaster 2026

Íslenska fyrirtækið Te & Kaffi hefur verið valið í hóp tíu fremstu kaffibrennsla Norðurlanda, sem hljóta þátttökurétt í hinni virtu keppni Nordics Best Roaster 2026, en hún verður haldin í Gautaborg í Svíþjóð í febrúar á næsta ári.

Tíu kaffibrennslur voru valdar úr hópi 25 umsækjenda og fór valið fram með ítarlegri blindsmökkun. Brennslurnar sem þóttu standa upp úr fá tækifæri til að kynna vörur sínar og vörumerki fyrir fjölmiðlum, fagfólki og áhugafólki í Roaster’s Village, sérstöku sýningarrými á Nordic Coffee Fest hátíðinni.

Til Gautaborgar þar sem draumurinn fæddist

„Það gerir þessa stund sérstaklega merkingarbæra að keppnin fer fram í Gautaborg – borginni þar sem fræinu að Te og Kaffi var sáð,“ segir Kristín María Dýrfjörð, eigandi fyrirtækisins. Fyrir meira en fjörutíu árum þegar foreldrar hennar voru búsett í borginni kynntust þau kaffihúsamenningu og sérverslunum með kaffi sem brenndu sínar eigin baunir, sem veitti þeim innblástur til að stofna Te og Kaffi þegar þau fluttu aftur heim.

„Að vera nú meðal tíu fremstu kaffibrennsla á Norðurlöndunum er ákveðin hringrás sem fyllir okkur stolti.“

Micro Roast línan að skína

Það er Micro Roast lína Te & Kaffi sem keppir í Gautaborg í febrúar. Fyrir þá sem ekki þekkja til eru notaðar sérvaldar baunir, frá einstökum kaffiræktarsvæðum sem hvert hefur sín einkenni, og brenndar í smærri skömmtum til að ná fram öllum blæbrigðum í bragði og angan. Línan hefur lengi notið vinsælda meðal íslenskra sælkera og fær nú að láta ljós sitt skína utan landssteinana.

 

Um keppnina

Nordics Best Roaster er hluti af Nordic Coffee Fest. Það er fagfólkið sjálft, ásamt útvöldum dómurum, sem velur bestu kaffibrennslu Norðurlanda. En keppnin snýst ekki eingöngu um úrslitin heldur er hún vettvangur til að fagna því ástríðufulla starfi, sérþekkingu og metnaði sem liggur að baki því að brenna eitt besta kaffi í heimi.

Um Te & Kaffi

Te & Kaffi er fjölskyldufyrirtæki sem stofnað var árið 1984. Fyrirtækið er brautryðjandi á Íslandi og leiðandi í nýsköpun á íslenskum kaffimarkaði. Í dag keppist Te & Kaffi við að færa Íslendingum gæðakaffi í takt við ferska strauma heima og erlendis, eins og Micro Roast kaffið er skínandi dæmi um.

Uppgötvaðu meira